15 Mars 2019 13:58

Félag íslenskra teiknara, FÍT, tilkynnti í dag tilnefningar til FÍT verðlaunanna 2019 en þar er keppt um það besta í grafískri hönnun og myndskreytingum á Íslandi. Nýjar ökutækjamerkingar lögreglunnar eru þar tilnefndar í flokknum Umhverfisgrafík.

Í byrjun árs 2018 tók ríkislögreglustjóri upp nýjar merkingar fyrir ökutæki sín. Hönnun á útliti ökutækja lögreglunnar var gerð af Atla Þór Árnasyni og Herði Lárussyni hjá Kolofon hönnunarstofu. Tekur hönnunin mið af því sem tíðkast víða í Evrópu en sérstök áhersla var lögð á aukinn læsi- og sýnileika og hagræðingu.

Öryggi lögreglumanna og almennings er lykilatriði

Við hönnun á nýjum merkingum var leitast til þess að gera ökutækin eins sýnileg og mögulegt er, án þess að þau yrðu of „áberandi“ í umferðinni og hreinlega stælu athygli ökumanna frá akstrinum. Grafíkin er hönnuð með það í huga að brjóta upp formið á ökutækjunum með áberandi skálínum.