26 Október 2007 12:00

Nýr og breyttur einkennisfatnaður lögreglunnar verður formlega tekin í notkun þann 1. nóvember nk. Embætti ríkislögreglustjóra hefur unnið að breytingum á búningum lögreglunnar í um tvö ár, með þátttöku og í samstarfi við fjölmarga aðila. Að verkinu hafa komið lögreglumenn, lögreglustjórar, hönnuðir o.fl. Markmið með breytingunum er öruggari og þægilegri vinnufatnaður sem mætir þörfum lögreglunnar.

Upphaflega stóð til að nýr einkennisfatnaður lögreglu yrði tekinn í notkun í upphafi árs 2007, en vegna ýmissa ytri aðstæðna hefur verið verulegur dráttur á afhendingu frá birgjum. Það hefur leitt til þess að eldri búningur er ófáanlegur og einhverjir lögreglumenn hafa því þurft að taka nýja búninginn í notkun fyrir 1. nóvember. Þeim er það heimilt þar sem aðrir kostir eru ekki fyrir hendi.

Hér að neðan er gerð grein fyrir helstu breytingum sem eru á einkennisfatnaði lögreglunnar:

Hátíðarbúningur lögreglunnar er óbreyttur frá fyrri árum. Vönduð svört ullarföt ásamt gyllingu í einkennum og tölum, hvít skyrta, svart bindi og hvít húfa með svörtu skyggni. Heimilt er að nota hátíðarbúninginn á stórhátíðisdögum, svo sem 17. júní, aðfangadag, jóladag, páskadag, hvítasunnudag, þegar lögreglumenn taka þátt í kirkjulegum athöfnum, við sérstakar móttökur og við önnur tilefni þegar lögreglustjóra þykir við hæfi að lögreglan klæðist hátíðlega. Búningurinn er hátíðarbúningur íslensku lögreglunnar og ber að hafa hliðsjón af því við notkun hans.   

Lögreglumönnum stendur til boða ýmiss fatnaður sem skilgreindur er í verklagsreglum lögreglunnar. Meðal breytinga má nefna ný köflótt endurskin að breskri fyrirmynd. Endurskinin eru á buxum, jökkum og húfum lögreglumanna. Lögreglan mun einnig klæðast svörtum skyrtum sem koma í stað blárra skyrtna. Nýmæli er að fatnaður lögreglunnar er auðkenndur bæði á íslensku og ensku.

Öryggi lögreglumanna var haft að leiðarljósi við efnisval búninganna. Sem dæmi má nefna að  hluti vinnufatnaðarins er úr eldtefjandi NOMEX efni.  Þá eiga hanskar að veita viðnám gagnvart stungum af sprautunálum.

Breytingar á einkennisfatnaði lögreglu verða sýnilegar almenningi þann 1. nóvember n.k. Jafnframt verður stefnt að kynningu á breyttum einkennisfatnaði og öðru er tengist lögreglu þann 1. desember n.k. í miðborg Reykjavíkur.

Nánari upplýsingar veita:

Jónas Ingi Pétursson, framkvæmdastjóri rekstrar í síma 570 2500.

Jónína S. Sigurðardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn í síma 570 2500.