1 Júlí 2014 12:00

Karl Gauti Hjaltason, skólastjóri

Nýr skólastjóri Lögregluskóla ríkisins

Þann 1. júlí 2014 urðu skólastjóraskipti í Lögregluskóla ríkisins. Karl Gauti Hjaltason, áður lögreglustjóri og sýslumaður í Vestmannaeyjum, tók við starfi skólastjóra en Arnar Guðmundsson, sem verið hafði skólastjóri frá árinu 1993, lét af störfum sökum aldurs.

Karl Gauti á að baki fjölbreyttan feril innan löggæslunnar. Að loknu cand.jur. prófi frá Háskóla Íslands var hann fulltrúi bæjarfógetans í Keflavík, Grindavík og Njarðvík og sýslumannsins í Gullbringusýslu 1989 – 1990 og starfaði um skeið hjá ríkisskattanefnd. Karl Gauti var settur sýslumaður á Hólmavík um skeið sumarið 1996. Hann var fulltrúi sýslumannsins í Árnessýslu og bæjarfógetans á Selfossi, síðar sýslumannsins á Selfossi, 1990 – 1998 þar til hann var skipaður sýslumaður í Vestmannaeyjum árið 1998. Karl Gauti hefur starfað sem oddviti yfirkjörstjórnar í Suðurlandskjördæmi frá 1998 og síðan í hinu nýja Suðurkjördæmi frá 2003.

Um leið og Karli Gauta er óskað til hamingju með hið nýja starf og óskað velfarnaðar, þakkar starfsfólk Lögregluskóla ríkisins og lögreglan öll, Arnari Guðmundssyni fyrir gifturíkt starf í þágu lögreglunnar.