6 Janúar 2007 12:00

Um síðastliðin áramót tóku í gildi lög þar sem kveðið er á um nýskipan löggæslumála á Íslandi. Lögregluembættunum er fækkað úr 26 í 15 með sameiningu lögregluliða.   Með þessum breytingum er lögð áhersla á að  með stækkun og fækkun lögregluumdæma er verið að auka og efla þjónustu lögreglu við íbúa landsins, styrkja lögreglu á öllum sviðum, bæði almenna löggæslu og rannsóknir sakamála.  Lögreglustjórinn á Hvolsvelli stýrir nú einnig löggæsluliði sem áður heyrði undir lögreglustjórann í Vík.  Níu lögreglumenn starfa í nýju umdæmi sem nær frá Gígjukvísl á Skeiðarársandi í austri og að Þjórsá í vestri.  Hið nýja embætti er alls um 15.400 ferkílómetrar að stærð með u.þ.b. 4300 íbúa í fimm sveitarfélögum með fjórum kauptúnum, Hellu, Hvolsvelli, Vík og Kirkjubæjarklaustri.  Í nýju umdæmi eru að auki þeir ferðamannastaðir á hálendinu sem eru hvað fjölfarnastir; Sprengisandsleið, Veiðivötn, Fjallabaksleiðir nyðri og syðri, Landmannalaugar, Eldgjá,  gönguleiðin milli Landmannalauga og Skóga, Þórsmörk, Fimmvörðuháls og Laki svo eitthvað sé nefnt.

Af þessu tilefni efndi lögreglustjórinn á Hvolsvelli, Kjartan Þorkelsson, til fundar föstudaginn 5. janúar síðastliðinn með lögreglumönnum og löglærðum fulltrúa er starfa í nýju umdæmi þar sem lögreglustjóri kynnti  m.a. stefnumótun fyrir hið nýja löggæsluumdæmi og langtímaáætlun.  Meðfylgjandi ljósmynd var tekin á lögreglustöðinni á Hvolsvelli af þessu tilefni.