3 Nóvember 2011 12:00

Nýsköpunarverðlaun í opinberum rekstri voru í fyrsta skipti veitt í dag. Að því stóðu fjármálaráðuneytið, Félag forstöðumanna ríkisstofnana, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands, Rannís og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Alls bárust 40 tilnefningar til verðlauna og voru 18 verkefni valin í úrslit, þar á meðal þrjú verkefni frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þetta voru verkefnin breytt skipulag löggæslu á höfuðborgarsvæðinu, virkir brotamenn – eftirlit með síbrotamönnum og aðgerðir til að draga úr hegningarlagabrotum og loks notkun samfélagsmiðla (Facebook og Twitter) á sviði löggæslu. Síðastnefnda verkefnið fékk sérstaka viðurkenningu fyrir nýsköpun í opinberum rekstri ásamt verkefnum frá Landmælingum Íslands og Blindrabókasafni Íslands. Nýsköpunarverðlaunin 2011 hlaut lögreglustjórinn  á Hvolsvelli fyrir verkefnið Skipulag rýminga vegna jökulhlaupa sem fylgja eldgosum í Kötlu og Eyjafjallajökli.

Verðlaunin og viðurkenningar voru afhentar af fjármálaráðherra á ráðstefnu sem haldin var í dag. Á ráðstefnunni var opnaður vefurinn www.nyskopunarvefur.is þar sem finna má nánari umfjöllun um þau verkefni sem tilnefnd voru til nýsköpunarverðlauna ásamt ýmsu öðru áhugaverðu.

Tenglar á lögregluna á samfélagsmiðlunum eru www.facebook.com/logreglan og www.twitter.com/logreglan.

Ljósmynd: Nýsköpunarvefur