21 Febrúar 2003 12:00

Einn þátturinn í baráttu gegn afbrotum eru forvarnir og þar gegna skólarnir afar mikilvægu hlutverki. Gott samstarf lögreglu og skóla skiptir því miklu máli. Lögreglan hefur á undanförnum árum aukið aðgerðir gegn afbrotum, svo sem með kerfisbundinni söfnun, úrvinnslu og miðlun tölfræðiupplýsinga og fjölþættu forvarnarstarfi. Þá hefur verið lögð áhersla á að bæta þjónustu lögreglunnar og laga frekar að kröfum almennings.

Ein af forsendum þess að vel takist til í forvarnastarfi er að það fari saman fræðsluefni, sem er aðgengilegt fyrir lögreglumenn, og samhæft lögreglulið  sem er í tengslum við almenning.  Lögreglumenn búa yfir mikilli hagnýtri reynslu og það sem þeir hafa fram að færa í skólastofunni getur haft mikil áhrif og komið góðu til leiðar.

Fyrir réttu ári síðan skipaði ríkislögreglustjóri vinnuhóp lögreglumanna til að fara yfir efni sem lýtur að forvarnastarfi og gera þetta efni aðgengilegt fyrir lögregluna í landinu. Ákveðið var að beina  sjónum fyrst og fremst að fræðsluefni fyrir börn og unglinga. Vinnuhópurinn hafði til hliðsjónar fræðsluefni um forvarnir, sem dóms- og lögreglumálaráðuneytið í Noregi gaf út fyrir lögregluna í Noregi og veitti ráðuneytið leyfi til að nýta það hér á landi. Vinnuhópurinn hefur lagað efnið að íslensku umhverfi og löggjöf. Vinna þessi er samstarfsverkefni ríkislögreglustjórans og Námsgagnastofnunar og hefur notið góðrar aðstoðar frá Lögregluskóla ríkisins. Þá var einnig tekið upp samstarf við lögregluembættin, fjölmargar stofnanir aðrar og fleiri sem tengjast þessu viðfangsefni.

Með þessu móti er leitast við að styrkja og samræma störf lögreglu að forvarna- og fræðslustarfi, þannig að sem bestur árangur megi nást í baráttu gegn afbrotum og misnotkun vímugjafa. Um leið er lagður grunnur að því að lögregluyfirvöld í öllum umdæmum hafi á boðstólum aðgengilegt fræðsluefni, sem verður endurskoðað reglulega. Það er mikið í húfi fyrir komandi kynslóðir og með fræðsluefni í forvarnastarfi leggur ríkislögreglustjórinn og Námsgagnastofnun sitt af mörkum til þess að sporna við slæmri þróun í þjóðfélaginu, svo sem í umferðinni, á sviði ofbeldis, þjófnaða, skemmdarverka, með notkun tóbaks, áfengis, fíkniefna og fleira.

Nú er að ljúka í Lögregluskólanum viku námskeiði fyrir lögreglumenn sem vinna að forvörnum víða um land þar sem kennt er hvernig á að nota þetta nýja kennsluefni sem þykir að mati Námsgagnastofnunar falla að námsgreinum í samfélagsfræði.

Frá fréttamannafundi í Foldaskóla 21. febrúar 2003

Talið frá vinstri: Ingibjörg Ásgeirsdóttir, forstjóri Námsgagnastofnunar, Aldís Yngvadóttir, ritstjóri hjá Námsgagnastofnun, Erna Sigfúsdóttir, lögreglufulltrúi hjá ríkislögreglustjóra, Valgarður Valgarðsson, varðstjóri í Hafnarfirði, Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, Hlynur Snorrason, lögreglufulltrúi á Ísafirði, Guðmundur Guðjónsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, Eiríkur Hreinn Helgason, yfirlögregluþjónn hjá Lögregluskóla ríkisins, og Alda Baldursdóttir, rannsóknarlögreglumaður í forvarna- og fræðsludeild lögreglunnar í Reykjavík. Á myndina vantar Kristínu Brandsdóttur, rannsóknarlögreglumann í forvarna- og fræðsludeild lögreglunnar í Reykjavík en hún starfaði einnig í vinnuhópi við undirbúning kennsluefnisins.

Talið frá vinsti: Kristinn Breiðfjörð, skólastjóri Foldaskóla, Aldís Yngvadóttir, ritstjóri hjá Námsgagnastofnun, Ingibjörg Ásgeirsdóttir, forstjóri Námsgagnastofnunar, Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, Erna Sigfúsdóttir, lögreglufulltúi hjá ríkislögreglustjóra, Guðmundur Guðjónsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, og Eiríkur Hreinn Helgason, yfirlögregluþjónn hjá Lögregluskóla ríkisins.