7 Febrúar 2024 10:32

Greiningardeild ríkislögreglustjóra (GRD) hefur gefið út stefnumiðaða greiningarskýrslu þar sem gerð er grein fyrir mati á hryðjuverkaógn á Íslandi.  Síðasta skýrsla var gefin út í febrúar 2022.

Í skýrslunni er fjallað um breytingar á skilgreiningu hættustigs vegna hryðjuverkaógnar en sú vinna hefur staðið yfir í töluverðan tíma. Hættustig hér á landi er nú í samræmi við skilgreiningar um hættustig flestra samstarfsríkja Íslands. Í skýrslunni er farið ítarlega yfir þær hættur sem horft var til við gerð matsins.

Hættustig á Íslandi er nú metið á þriðja stigi af fimm en það merkir aukna ógn.

Í skýrslunni er farið yfir þá þróun sem hefur orðið meðal einstaklinga og hópa sem aðhyllast ofbeldisfulla öfgahyggju. Gerð er grein fyrir hugsanlegri framtíðarþróun hryðjuverkaógnar á Íslandi og þeim drifkröftum sem geta haft áhrif þar á. Tengsl lýðskrums, upplýsingaóreiðu og öfgahyggju er skoðað en saman mynda þessir þættir samtengda öryggisógn sem samhliða örri tækniþróun geta haft neikvæð áhrif á til langs tíma, ekki síst með tilkomu risavaxinna gervigreindarknúinna tungumálalíkana.

Í skýrslunni er einnig gerð grein fyrir þeim þáttum sem geta dregið úr hryðjuverkaógn á Íslandi. Sem dæmi eru engar vísbendingar um að hryðjuverkahópar séu starfandi á Íslandi. Þá eru ekki vísbendingar um að íslenskir hryðjuverkahópar séu starfræktir erlendis.

Skýrslu GRD má lesa í heild sinni hér.

Nánari upplýsingar veitir Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, í síma 444-2570 eða helena.sturludottir@logreglan.is

kl 15.05 Fréttin hefur verið uppfærð. Í upphaflegri frétt var greint frá því að síðasta skýrsla hafi komið út 2021 en hið rétta er að síðasta skýrsla kom út í febrúar 2022.