30 Júní 2003 12:00

Í síðustu viku var umferðardeild ríkislögreglustjórans í samstarfi við lögregluna í Reykjavík við hraðamælingar í íbúðarhverfum þar sem hámarkshraði er 50 km/klst.  Nokkur fjöldi ökumanna ók yfir þessum hraða sem er mikið umhugsunarefni þar sem vænta má gangandi vegfarenda og barna að leik.    En það er líka umhugsunarefni hvaða ökumenn það eru sem aðallega aka um götur íbúðarhverfanna.  Eru það íbúarnir sjálfir og foreldrar barnanna?  Ríkislögreglustjórinn hvetur ökumenn til þess að virða reglur um hámarkshraða og sýna sérstaka aðgát þegar ekið er um íbúðarhverfin.  Þessu eftirliti verður haldið áfram og verða notaðar merktar- og ómerktar bifreiðar lögreglunnar til þess að fylgjast með umferðinni. 

Umferðardeild ríkislögreglustjórans var einnig á eftirlitsferð í umdæmum lögreglunnar í Borgarnesi, á Hólmavík, Blönduósi og á Sauðárkróki, í mikilli umferð sem þó var áberandi meiri í norður.  Umferðarhraði var oftast skikkanlegur og ökumenn tillitssamir þegar kom að framúrakstri.  Hins vegar vantaði upp á að ökumenn höguðu akstri í samræmi við veðurskilyrði þegar svo bar við.  Að þessu sinni voru afskipti höfð af 140 ökumönnum sem eiga von á sektarboðum. 

Umferðardeildin hvetur ökumenn til þess að sýna aðgát og tillitsemi í umferðinni sem stöðugt fer vaxandi um þessar mundir.  Spennum beltin og högum akstri eftir aðstæðum.