30 Október 2002 12:00

Reykjavík 30 okt. 2002.

Ofbeldi tengt fíkniefnaviðskiptum

Undanfarnar vikur hefur talsverð umræða verið í samfélaginu um ofbeldi í hinum svokallaða fíkniefnaheimi þar sem meðal annars hefur verið sagt frá tilvikum um beitingu líkamlegs ofbeldis eða hótana um ofbeldi. Þeir sem orðið hafa fyrir slíku ofbeldi vegna fíkniefnaviðskipta eða í tenglum við fíkniefnamál af einhverju tagi virðast ekki hafa leitað til lögreglu vegna þessa.

Ofbeldi hvers konar, þar með talið líkamlegt ofbeldi svo og hótanir um beitingu þess er refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum. Í 233. grein þeirra laga kemur fram að virðurlög við broti sem felst í hótun um beitingu ofbeldis eru sektir eða fangelsi allt að tveimur árum.

Á árinu 2000 kom inn nýtt ákvæði í 108. grein hegningarlaganna sem m.a. er ætlað að veita vitnum aukna vernd. Þann sem beitir annan mann eða nánum vandamanni hans líkamlegu ofbeldi eða hótun um ofbeldi, vegna skýrslugjafar hans hjá lögreglu eða fyrir dómi má dæma í allt að 6 ára fangelsi, en til greiðslu sektar ef málsbætur eru.

Lögreglan hefur fylgst með þessari umræðu og vill ítreka það sem áður hefur komið fram af hennar hálfu, að þeir einstaklingar sem verða fyrir árásum og hótunum af þessu tagi geta leitað til lögreglu og lagt fram kæru eins og í öðrum brotum.