14 Nóvember 2007 12:00

Staða og þróun mála í Kópavogi var rætt á fundi sem lögreglan stóð fyrir í Hamraborg í gær en hann sóttu um tuttugu manns, þ.á.m. fulltrúar allra flokka í bæjarstjórn. Stefán Eiríksson lögreglustjóri fór yfir stefnu embættisins en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur það m.a. að leiðarljósi að auka öryggi og öryggistilfinningu þeirra sem búa, starfa og dveljast á höfuðborgarsvæðinu. Gylfi Sigurðsson aðalvarðstjóri fór yfir þróun mála í einstaka brotaflokkum og bar saman árin 2005 og 2006. Í því sambandi má nefna að hegningarlagabrotum hefur fækkað hlutfallslega, eða úr 13,6% í 11,5%. Hér er um að ræða hlutfall tilkynntra brota í Kópavogi af heildarfjölda brota á höfuðborgarsvæðinu.

Gylfi nefndi sérstaklega að auðgunarbrot kæmu mikið inn á borð svæðisstöðvarinnar. Þar munar mestu að fjölmargar verslanir eru í Smáralind og við Smáratorg en á þessa stöðum er ósjaldan óskað eftir aðstoð lögreglu vegna þjófnaðarmála. Liggur við að þar sé fólk tekið nánast daglega fyrir hnupl. Egill Bjarnason yfirlögregluþjónn tók við eftir erinda Gylfa. Egill fór yfir umferðarmálin en af nógu var að taka í þeim efnum. Kynntar voru niðurstöður úr hraðamælingum og greinilegt er að sumir ökumenn verða að taka sig á. Það sem af er árinu er vitað um 67 umferðaróhöpp í Kópavogi þar sem orðið hafa slys á fólki. Það skal tekið fram að í langflestum tilvikum er um minniháttar meiðsli að ræða. Þrettán slysanna hafa orðið á Nýbýlavegi og átta á Fífuhvammsvegi en þessar götur skera sig nokkuð úr hvað þetta varðar.

Margt fleira var rætt á fundinum en ástandið í Kópavogi er um margt mjög gott. T.d. má nefna að þar er haldið úti einstaklega öflugu foreldrarölti sem virðist skila mjög góðum árangri. Þá var tekin upp svokölluðu nágrannavarsla í einu hverfa bæjarins en það er tilraunaverkefni til eins árs. Snemma á næsta ári er fyrirhugað að halda opinn íbúafund þar sem löggæslumál í Kópavogi verða til umfjöllunar. Nánar verður fjallað um það á lögregluvefnum þegar nær dregur.

Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri og Gylfi Sigurðsson aðalvarðstjóri.

Árni Hilmarsson, framkvæmdastjóri fræðslusviðs, og Arnar Ævarsson forvarnarfulltrúi.

Guðríður Arnardóttir bæjarfulltrúi, Gylfi og Bjarni Guðmundsson varðstjóri.