9 Október 2009 12:00

Árleg fundaherferð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu hófst í Hafnarfirði í gær. Á næstu dögum munu fulltrúar embættisins heimsækja önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem og einstök hverfi í borginni og fara yfir stöðu mála á hverjum stað fyrir sig. Um tuttugu manns sóttu fundinn sem haldinn var í Hafnarfirði í gær en venju samkvæmt fór hann fram í gamla bókasafnshúsinu við Mjósund.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri hafði orðið í upphafi en hann fór yfir helstu breytingar sem hafa átt sér stað hjá embættinu undanfarið, m.a. er snúa að hlutverkum lögreglustöðvanna. Í stuttu máli má segja að áherslan sé lögð á virkt, öflugt og sýnilegt eftirlit og á það við um allt höfuðborgarsvæðið. Ólafur G. Emilsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri í Hafnarfirði, fór þessu næst nokkrum orðum um starf lögreglunnar í Hafnarfirði en hún býr nú yfir mjög öflugri rannsóknardeild. Þar fyrir utan eru 25 lögreglumenn á sólarhringsvöktum en margir þeirra eru búsettir í bænum og/eða störfuðu þar fyrir sameiningu lögregluliðanna 1. janúar 2007. Þeir gjörþekkja því aðstæður og það nýtist þeim mjög vel í starfi.

Aðaltilgangur fundarins var að fara yfir stöðu mála og kynna tölfræði um þróun afbrota í sveitarfélaginu. Um það sá Margeir Sveinsson lögreglufulltrúi en í máli hans kom fram að Hafnfirðingar eru um margt ágætlega settir, ekki síst í samanburði við önnur svæði í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Innbrotum í Hafnarfirði hefur reyndar fjölgað í samanburði við meðaltal síðustu þriggja ára en það á reyndar við um flest ef ekki öll önnur svæði í umdæminu. Athygli vekur að fíkniefnabrotum fækkar og er það eitt af hinu jákvæða. Of langt mál er telja upp allt það sem Margeir hafði að segja en tölfræðina í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

Ólafur G. Emilsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri, steig aftur í pontu og kynnti niðurstöður könnunar um reynslu íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Í henni kemur m.a. fram að Hafnfirðingar eru yfirleitt ánægðir með störf lögreglunnar og telja hana skila góðu starfi þegar kemur að því að stemma stigu við afbrotum í bænum en 91% þeirra töldu svo vera. Könnunin var birt á lögregluvefnum í júlí en hana má nálgast með því að smella hér. Nokkur umræða varð um umferðarmál en Kristján Ólafur Guðnason aðstoðaryfirlögregluþjónn er með þau mál á sinni könnu hjá embættinu. Í máli hans kom fram að slysum hefur fækkað verulega á höfuðborgarsvæðinu og eru Hafnfirðingar þar engir eftirbátar. Ýmislegt fleira var rætt á fundinum en ekki var annað á fulltrúum Hafnfirðinga að heyra en að þeir væru sáttir við fyrirkomulag löggæslumála í Hafnarfirði.