5 Nóvember 2010 12:00

Í gær hófust árleg fundahöld lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilaðilum á öllum svæðum í umdæminu og var fyrsti viðkomustaður lögreglustjórans og hans manna í Hafnarfjarðarbæ. Á næstu dögum munu fulltrúar embættisins heimsækja hverfi í borginni og nágrannasveitarfélögin og funda um afbrot og stöðu mála á hverjum stað fyrir sig. Fundurinn í gær fór fram í gamla bókasafninu við Mjósund og var vel sóttur, en þar voru saman komnir fulltrúar bæjarstjórnar og bæjarins, félagsþjónustunnar, forvarnafulltrúar, fulltrúar grunnskólanna og foreldrafélaganna, samtals um 25 manns. Frá lögreglunni sátu fundinn lögreglustjóri og yfirmenn lögreglumála í Hafnarfirði ásamt fleirum.

Ólafur G. Emilsson stöðvarstjóri lögreglustöðvar 2 kynnti langtímamarkmið, stefnu og áherslur embættisins. Hann fór yfir tölur um þróun afbrota í sveitarfélaginu á undanförnum misserum og sagði frá niðurstöður könnunar sem embættið lætur gera árlega á viðhorfum íbúa til lögreglu og reynslu af afbrotum. Meðal þess sem lögreglan leggur áherslu á í störfum sínum er aukinn sýnileiki, markvissar forvarnir, öflun og miðlun upplýsinga og skilvirkar rannsóknir. Þróun afbrota í Hafnarfirði það sem af er árinu er jákvæð, en brotum fækkar í öllum helstu brotaflokkum samanborið við sama tímabil í fyrra. Færri brot eru í sveitarfélaginu en að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu. Að auki hefur slysum í umferðinni í Hafnarfirði fækkað umtalsvert á árinu samanborið við síðustu ár. 

Jákvæðni íbúa Hafnarfjarðar til starfa lögreglu dvínar lítillega milli kannana, en engu að síður telja 88% þeirra að lögregla skili góðu starfi á svæðinu. Nokkra athygli vekur að þegar spurt er um hversu aðgengileg fólki finnst lögreglan vera á þeirra svæði, segja íbúar Hafnarfjarðar lögregluna mun óaðgengilegri nú heldur en í fyrri könnunum. Íbúum sem finnst þeir öruggir í sínu hverfi fjölgar hlutfallslega en aftur á móti fjölgaði þeim sem upplifðu aðstæður sínar einhvern tímann þannig að þeir höfðu ástæðu til að óttast afbrot. Kynninguna af fundinum má nálgast hér.

Eftir kynningu Ólafs var opnað fyrir spurningar og fóru af stað gagnlegar umræður um stöðu mála í Hafnarfirði. Almenn ánægja var með stöðu mála og að tölur sýndu í aðalatriðum jákvæða þróun. Voru fundarmenn sammála um að gott samstarf lögreglu og fulltrúa bæjarins hefði skilað árangri í afbrotavörnum. Meðal annars var rætt um veggjakrot í bænum og leiðir sem eru líklegar til árangurs til að sporna við því. Komið var á framfæri sérstökum þökkum til lögreglu vegna þess hvernig tekið var á vandamálum sem komu upp í einum bæjarhluta í tengslum við hópamyndun með tilheyrandi afbrotum og ónæði. Lögðu fulltrúar lögreglu áherslu á gildi foreldrarölts og bentu á þann árangur sem öflugt foreldrarölt hefur skilað víða í bænum. Kom fram gagnkvæmur vilji til áframhaldandi og öflugs samstarfs í þeim verkefnum sem stuðla að því að gera Hafnarfjörð enn öruggari og betri bæ.