19 Nóvember 2012 12:00

Ökumaður bifreiðar í Keflavík missti stjórn á henni með þeim afleiðingum að hún hafnaði á tengikassa. Atvikið varð með þeim hætti að bifreiðin rann til að aftan. Við það kom fát á ökumanninn sem steig á bensínið í stað bremsunnar. Þegar tengikassinn varð fyrir högginu sló rafmagni út á ljósastaurum á stóru svæði í bænum. Starfsmenn frá HS Veitum komu ljósunum skömmu síðar í lag. Allnokkurt tjón varð af völdum óhappsins því tengikassinn með því sem í honum er kostar á fjórða hundrað þúsund krónur.

Annar ökumaður ók um helgina á hlið við Seltjörn. Mikil hálka var þegar óhappið átti sér stað.

Með amfetamín og eðlu

Amfetamín, eðla og svefnlyf var meðal þess sem blasti við lögreglunni á Suðurnesjum, þegar hún gerði húsleit í íbúðarhúsnæði í Reykjanesbæ síðastliðið föstudagskvöld, að fengnum dómsúrskurði. Húsráðandi, tæplega þrítugur karlmaður, var handtekinn og færður á lögreglustöð. Hann tjáði lögreglu að efnin væru í eigu félaga síns. Hann gekkst hins vegar við því að eiga eðluna, sem er um hálfur metri að lengd. Lögregla haldlagði amfetamínið, svefntöflurnar og eðluna, en smygl og varsla slíkra dýra er brot á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.