11 Maí 2012 12:00

Fíkniefni í fyrrum bílaleigubíl

Maríjúana fannst í gær  í bifreið í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum, sem haldlagði efnið. Bílaleiga í umdæminu hafði selt bifreiðina en þar sem kaupandinn stóð ekki í skilum með afborganir fóru starfsmenn fyrirtækisins og sóttu bílinn. Þegar þeir voru að safna saman munum sem hinn óskilvísi kaupandi hafði skilið eftir í bifreiðinni fundu þeir  maríjúana í tveimur glærum smellupokum sem komið hafði verið fyrir í sígarettupakka. Þeir gerðu lögreglu þegar viðvart og fjarlægði hún efnin úr bílnum.

30 ökumenn brotlegir

Lögreglan á Suðurnesjum hefur á undanförnum dögum stöðvað 26 ökumenn sem allir óku vel yfir  leyfilegum hámarkshraða. Flest áttu hraðabrotin sér stað á Reykjanesbraut, en einnig á Sandgerðisvegi, Njarðarbraut og Grindavíkurvegi. Þá hafði lögregla afskipti af fjórum ökumönnum vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Við leit fannst meint kannabis Í vasa farþega í einni bifreiðinni.

Brotist inn og verkfærum stolið

Tilkynnt var nýverið, til lögreglunnar á Suðurnesjum,  um innbrot í verkstæðisbyggingu við Freyjutröð í Reykjanesbæ. Þar hafði útidyrahurð verið spennt upp og hinn óboðni gestur, eða gestir, komist inn með þeim hætti. Stolið hafði verið handverkfærum af verkstæðinu og er verðmæti þeirra um þrjátíu þúsund krónur. Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um málið eru beðnir að hafa samband við lögregluna í síma 420-1800.

Vildi snakk og skemmdi bíl

Deilur  tveggja rúmlega tvítugra manna um snakk urðu til þess að skemmdir á bifreið voru tilkynntar til lögreglunnar á Suðurnesjum. Mennirnir voru að bera á sólpall þegar annar vildi fá snakk hjá hinum sem neitaði. Þeir byrjuðu að ýta hvor í annan, þar til snakkeigandinn lagði á flótta og skvetti um leið orkudrykk á hinn. Sá síðarnefndi fór þá að bíl í eigu móður snakkeigandans og sparkaði í hann,  auk þess sem hann er sagður hafa barið í skottlok bifreiðarinnar og  lamið hana með plastlista.

Giftingarhring biðils stolið

Tæplega þrítugur erlendur karlmaður gaf sig fram við lögregluna á Suðurnesjum á varðstofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar nýverið. Hann sagði farir sínar ekki sléttar. Hann kvaðst hafa komið frá London deginum áður og þegar hann sótti tösku sína í komusalinn reyndist hún vera hálfopin, þar sem rennilásnum hafði verið rennt frá að hluta. Úr töskunni saknaði maðurinn giftingahrings, en hann kvaðst hafa ætlað að biðja unnustu sinnar hér á landi. Þá kvaðst hann sakna um 40 þúsund íslenskra króna sem voru horfnar úr töskunni, ásamt einhverju snakki.

Kannsbisræktun í svefnherbergi

Lögreglan á Suðurnesjum handtók í vikunni karlmann á fertugsaldri og rúmlega tvítuga konu vegna gruns um að kannabisræktun væri í gangi í íbúðarhúsnæði þeirra. Að undangengnum dómsúrskurði var  gerð húsleit á heimilinu. Þar fundust fjórtán kannabisplöntur, tólf í einu svefnherbergi og tvær í öðru. Konan játaði  aðild sína að málinu sem telst upplýst. Lögregla lagði hald á plönturnar og ræktunarbúnaðinn. Minnt er  á fíkniefnasímann 800 5005 þar sem hægt er að koma gjaldfrjálst á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál, undir nafnleynd, til lögreglu.