23 Febrúar 2015 11:36

Ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum handtók um helgina vegna fíkniefnaaksturs gaf í þegar lögreglumenn gáfu honum merki um að stöðva bifreiðina. Ökuferðinni lauk snögglega með því að ökumaðurinn ók á grindverk og síðan á hús. Þrír farþegar voru í bifreiðinni og voru þeir allir handteknir, auk ökumanns, þar sem þeir voru í afar annarlegu ástandi. Á lögreglustöð át einn þeirra upplýsingablað handa handteknum. Fólkið,  sem hafði komið frá Reykjavík til að sækja skemmtistað í Reykjanesbæ,  var allt vistað í fangaklefa þar til það náði áttum. Bifreiðina varð að fjarlægja af vettvangi með dráttarbifreið og talsverðar skemmdir urðu á grindverkinu og húsinu.