3 Apríl 2012 12:00

Skömmu fyrir klukkan 18 í gær urðu lögreglumenn í umferðareftirliti varir við torfæruhjól í akstri á Eyravegi á Selfossi á móts við Tónlistaskólann.  Ekkert skráninganúmer sást á ökutækinu og hugðust lögreglumennirnir hafa tal af ökumanni.  Hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum og lagði á flótta norður yfir Ölfusárbrú og inn í Hrísmýri þar sem hann fór inn á göngustíg við steypustöðina.  Ökumaðurinn stefndi inn í mýrina þar sem hann festi hjólið en hélt áfram á hlaupum.  Það dugði honum ekki þar sem vel þjálfaður lögreglumaður hljóp hann uppi og handtók hjólamanninn.  Grunsemdir vöknuðu um að ökumaðurinn væri undir áhrifum fíkniefna.  Hann var því færður í blóðtöku.  Í framhaldi af því var gerð húsleit á heimili mannsins.  Þar fundust tíu kannabisplöntur í ræktun.  Maðurinn mun verða kærður fyrir tíu brot sem eru m.a. að hafa ekið á óskráðu og ótryggðu ökutæki, utanvegaakstur, að sinna ekki fyrirmælum lögreglu, framleiðslu fíkniefna o.fl.