14 Nóvember 2013 12:00

Í október fylgdist Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega með því hvort ökumenn í umdæminu spenntu beltin, gæfu stefnuljós og notuðu handfrjálsan búnað þegar þeir töluðu í síma í akstri. Í ljós kom að ökumenn geta gert mun betur í þessum efnum, en lögreglan stöðvaði hátt í 200 ökumenn, sem gáfu ekki stefnuljós þegar við átti. Afskipti voru höfð af um 230 ökumönnum, sem spenntu ekki beltin, og loks stöðvaði lögreglan um 125 ökumenn, sem töluðu í síma í akstri án þess að notast við handfrjálsan búnað. Samtals voru um 550 ökumenn stöðvaðir fyrir áðurnefndar sakir, en hinir sömu fengu allir sekt fyrir vikið. Eftirlitið stóð yfir allan októbermánuð og var notast við bæði merktar og ómerktar lögreglubifreiðar í þessum tilgangi.

Tölurnar hér að ofan koma ekki að öllu leyti á óvart, en þó vekur nokkra athygli hversu margir ökumenn vanrækja merkjagjöf. Í viðhorfskönnun ökumanna kom einmitt fram að fátt fer meira í taugarnar á þeim en að aðrir gefa ekki stefnuljós! Áróður um bílbeltanotkun mætti líka skila betri árangri og svo virðist enn fremur að margir ökumenn átti sig ekki á hættunni sem fylgir því að tala í síma í akstri án handfrjálss búnaðar.

Til fróðleiks má nefna að lögreglan stöðvaði 48 ökumenn í október 2012 fyrir að nota ekki bílbelti og 18 árið á undan. Í október í fyrra voru 34 ökumenn stöðvaðir fyrir að tala í síma án handfrjáls búnaðar og 13 árið 2011. Loks hafði lögreglan afskipti af 13 ökumönnum í október 2012 fyrir að vanrækja merkjagjöf og 4 á sama tímabili 2011. Árin 2011 og 2012 var ekki haldið úti sérstöku eftirliti vegna þessa og skýrir það hinn mikla mun í samanburði við fjölda ökumanna sem lögreglan hafði afskipti af í október 2013.

Þrátt fyrir að ökumenn geti gert betur á mörgum sviðum er þó jákvætt að umferðarslysum hefur fækkað. Í október voru þau 26, en 29 á sama tímabili í fyrra og 28 í október 2011. Að síðustu hvetur lögreglan alla ökumenn til að vera áfram með í þeirri baráttu að fækka slysum. Það hefst m.a. með því að ökumenn noti þann sjálfsagða öryggisbúnað sem bílbeltin eru og sýni samferðafólki í umferð líka þá virðingu að gefa stefnuljós þegar það á við og tali heldur ekki í farsíma án handfrjáls búnaðar.