8 Desember 2021 13:11

Nokkuð ber á að ökutæki séu skilin eftir í lausagangi, ólæst og mannlaus utan við verslanir til að mynda og leik- og grunnskóla meðan ökumaður bregður sér frá. Slíkt er óheimilt með vísan til 28. gr. umferðarlaga þar sem segir að þegar ökumaður yfirgefur vélknúið ökutæki skuli hann stöðva vél þess og búa svo um að það geti ekki runnið sjálfkrafa eða aðrir látið það fara af stað.

Um það athæfi að skilja ökutæki eftir í gangi er einnig fjallað í reglugerð um varnir gegn loftmengun. Þar segir í 6. gr. að óheimilt sé að skilja ökutæki eftir í gangi þegar það er yfirgefið.

Með öryggissjónarmið að leiðarljósi og hagsmuni okkar og umhverfisins ekki síður, beinir lögregla þeim tilmælum vinsamlegast til ökumanna um að hafa þetta í huga, að skilja ökutæki sín ekki eftir í gangi og læsa þeim tryggilega þegar þau eru yfirgefin.