29 Október 2012 12:00

Lögreglan á Suðurnesjum var í fyrrakvöld kvödd að flughóteli á Keflavíkurflugvelli, þar sem gestur, er bókaður var í flug til Kaupmannahafnar í gær, hafði verið ölvaður og með óspektir. Hafði hann meðal annars dreift ýmsum munum í eigu sinni á á gólfið og sýnt af sér ýmis konar ólíðandi háttsemi aðra. Þegar lögreglumenn komu á staðinn lá gesturinn öldauður á gólfi á gangi við afgreiðslu. Hann var færður á lögreglustöð þar sem hann var látinn sofa úr sér. Að því búnu gat hann hafið ferðalag sitt í háloftunum.

Ók á rúmlega 140

Lögreglan á Suðurnesjum hefur á undanförnum dögum haft afskipti af fjórum ökumönnum sem óku yfir leyfilegum hámarkshraða. Sá sem hraðast ók mældist á 141 kílómetra hraða á Grindavíkurvegi, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund.

Þá voru skráningarnúmer klippt af fimm bifreiðum, sem ýmist voru ótryggðar eða óskoðaðar. Tveir ökumenn til viðbótar voru ekki með öryggisbeltin spennt.

Stolið úr tveimur bílum

Innbrot í tvær bifreiðar í Sandgerði voru tilkynnt lögreglunni á Suðurnesjum um helgina. Í öðru tilvikinu var farið inn í læstan bíl og stolið úr honum kreditkorti og smáaurum milli sæta.

Úr hinni bifreiðinni, sem var ólæst, var stolið leiðsögutæki.

Lögregla brýnir fyrir bifreiðaeigendum að skilja ekki eftir verðmæti á glámbekk í bílum sínum og ganga tryggilega frá þeim að notkun lokinni.

Ekki ferðafærir sakir ölvunar

För tveggja flugfarþega þurfti að stöðva nýverið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og færa þá á lögreglustöð þar sem þeir voru svo ölvaðir, að þeir voru ekki taldir ferðafærir. Sá fyrri hafði haft í hótunum við annan flugfarþega í verslun í Leifsstöð, auk annarrar slæmrar hegðunar. Þegar lögreglumenn á Suðurnesjum komu á vettvang og vildi ræða við manninn, brást hann illa við. Í lögreglubifreið á leiðinni á lögreglustöð varð hann svo verulega æstur og illviðráðanlegur, svo kalla varð til liðsauka.

Hinn maðurinn var einnig færður á lögreglustöð vegna ölvunarástands síns.

Tveir réttindalausir ökumenn

Lögreglan á Suðurnesjum hafði um helgina afskipti af tveimur ökumönnum sem báðir voru án ökuréttinda. Kona á þrítugsaldri, sem ók um götur Keflavíkur, reyndist aldrei hafa öðlast slík réttindi.

Karlmaður á fimmtugsaldri, sem var á ferðinni í Grindavík, átti eftir að endurtaka ökupróf og var því próflaus.