18 Júní 2012 12:00

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í gær akstur karlmanns á fertugsaldri sem ók torfæruhjóli langt yfir leyfilegum hraða á Sandgerðisvegi. Mældist hjólið vera á 122 kílómetra hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km. á klukkustund. Maðurinn bar einkenni ölvunar og var því handtekinn og færður á lögreglustöð. Þar var hann sviptur ökuréttindum. Tíu ökumenn til viðbótar reyndust aka yfir leyfilegum hámarkshraða við umferðareftirlit lögreglunnar um helgina.

Steypumótum og olíu stolið

Tilkynnt var til lögreglunnar á Suðurnesjum um stuld á steypumótum um helgina. Þegar flytja átti mótin milli staða kom í ljós að hluti þeirra var horfinn, svo og klemmur, stoðir og ýmislegt fleira.  Þá var tilkynnt um stuld á olíu af vinnutækjum á vinnusvæði við Reykjanesvirkjun. Olíunni var stolið af beltagröfu og tveimur öðrum vinnutækjum þar. Ekki er ljóst um hve mikið magn var að ræða. Málið er í rannsókn.

Innbrot í fyrirtæki

Brotist var inn í fyrirtæki í Reykjanesbæ í fyrrinótt.  Rúða hafði verið brotin á norðurhlið hússins og voru ummerki um að þar hefði verið farið inn. Athugun leiddi í ljós að verðmæt Apple tölva var horfin, en ekki hafði verið hreyft við öðru innan dyra. Öryggiskerfi í fyrirtækinu hafði farið í gang skömmu eftir miðnætti og var þá hringt eftir aðstoð lögreglu, sem vinnur nú að rannsókn málsins.