15 Maí 2012 12:00
Lögreglan á Suðurnesjum hafði um helgina afskipti af ökumanni sem grunaður var um ölvunarakstur. Maðurinn, sem er á fertugsaldri reyndist vera mjög ölvaður og að auki harla klæðlítill undir stýri. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð. Þar var hann látinn sofa úr sér. Síðan var tekin af honum skýrsla og honum sleppt að því loknu. Þá kom akandi á lögreglustöð annar karlmaður, sem taldi sig eiga þangað erindi. Af honum lagði megna áfengislykt og var hann handtekinn, grunaður um ölvun við akstur. Loks var rúmlega tvítug kona handtekin, grunuð um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Féll í stiga og missti meðvitund
Lögreglan á Suðurnesjum var um helgina kölluð að skemmtistað í umdæminu þar sem karlmaður hafði dottið í stiga með þeim afleiðingum að hann missti meðvitund. Talið var að höfuð hans hefði skollið í vegg í fallinu og hann rotast. Sjúkraflutningamenn komu skömmu síðar á vettvang og veittu manninum aðhlynningu. Hann komst fljótlega til meðvitundar og var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til frekari aðhlynningar og skoðunar. Hann fékk að fara heim að því loknu.
Tíu hraðakstursbrot
Tíu ökumenn voru staðnir að því að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina. Flest áttu brotin sér stað á Reykjanesbraut, þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Sá sem hraðast ók mældist á 126 kílómetra hraða. Þá mældist bifreið, sem sautján ára piltur ók á 124 kílómetra hraða. Einn hina tíu gerðist brotlegur á Grindavíkurvegi og mældist bifreið hans á 116 kílómetra hraða.