22 Desember 2002 12:00

Á þriðja tímanum, aðfaranótt laugardagsins 21. desember sl. barst lögrelgunni á Ísafirði tilkynning þess efnis að bifreið hafi verið ekið á hús við Fjarðarstræti.  Lögreglan og sjúkralið fór strax á vettvang og komu að þar sem fólksbifreið hafði verið ekið á steinhús.  Einn var í bifreiðinni n.t.t. í ökumannssæti.  Maðurinn bar öll þess merki að vera ölvaður.  Hann var með nokkra áverka í andliti og gert var að sárum hans á sjúkrahúsinu á Ísafirði.

Maðurinn er grunaður um að hafa ekið, ölvaður, um götur Ísafjarðar og við rannsókn málsins kom í ljós að hann hafði, skömmu áður en bifreiðin hafnaði á húsinu umrædda, ekið utan í bifreið sem stóð mannlaus á bifreiðastæði við sömu götu.

Í bifreiðinni fundu lögreglumenn áhald til neyslu kannabisefna og var maðurinn grunaður um að hafa ekki aðeins neytt áfengis.

Bifreið mannsins er mjög mikið skemmd ef ekki ónýt.  Þá varð nokkuð tjón á húsinu.  Bifreiðin mannlausa, sem varð á vegi ökumannsins er óökufær eftir áreksturinn.

Maðurinn var í haldi lögreglunnar þangað til í gærkveldi er honum var sleppt lausum, enda málið talið upplýst.