20 Júlí 2013 12:00

Á níunda tímanum í morgun vaknaði grunur lögreglu um að skipstjóri báts, sem hafði hringt í Neyðarlínu og lögreglu, væri undir áhrifum áfengis.  Um er að ræða handfærabát sem staddur var grunnt út af Ísafjarðardjúpi. Óskað var aðstoðar þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flaug til Ísafjarðar og tók þar lögreglumann um borð.  Flogið var yfir bátinn og sigu lögreglumaður og áhafnarmeðlimur þyrlunnar um borð.  Skipstjórinn reyndist vera einsamall og ölvaður.  Hann var handtekinn og bátnum siglt til næstu hafnar, Bolungarvíkur. Viðeigandi sýni hafa verið tekin í þágu rannsóknar málsins og skipstjórinn yfirheyrður.

Aðgerð þessi er gott dæmi um ákaflega farsælt samstarf lögreglu og Landhelgisgæslunnar.