30 Júlí 2004 12:00

Rétt fyrir kl.22:00 í gær stöðvaði lögreglan á Ísafirði akstur ökumanns sem grunaður er um að hafa verið ölvaður við aksturinn.  Stöðvunin átti sér stað í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi, þar sem lögreglan var með strangt eftirlit vegna verslunarmannahelgarumferðarinnar.  Ökumaðurinn og farþegi í bifreiðinni, karlmenn á fertugsaldri, voru handteknir og færðir á lögreglustöðina á Ísafirði.  Aðilarnir voru að koma akandi frá Reykjavík og hugðust fara til Ísafjarðar.

Við leit í bifreiðinni, við komuna til Ísafjarðar, fann lögreglan lítilræði af kannabisefnum, n.t.t. hass,  í bifreið tvímenninganna og áhald sem greinilega hafði verið notað til kannabisreykinga.

Þeir hafa verið í haldi lögreglunnar þar til í dag er þeim var sleppt lausum.  Báðir hafa þeir komið við sögu lögreglunnar áður m.a. vegna fíkniefnamála.