7 Október 2002 12:00

Undanfarna daga hefur í fjölmiðlum og á Alþingi verið fjallað um rekstrarþróun embættis ríkislögreglustjóra frá stofnun þess árið 1997 til fjárlagafrumvarps ársins 2003. Embættinu þykir þessi árlega umfjöllun um rekstur embættisins ómálefnaleg og ómakleg. Í því efni skal vitnað til orða háttvirts fjármálaráðherra Geirs H. Haarde í umræðu um embættið á Alþingi þann 4. þessa mánaðar. Þar segir fjármálaráðherra m.a. að embætti ríkislögreglustjóra hafi tekið við fjölmörgum verkefnum sem áður voru unnin annars staðar, auk verkefna tengd Schengen- og SIRENE-samstarfinu og að allur bílakostnaður lögregluliðinna í landinu sé nú færður hjá embættinu. Í fjárlagatillögum 2003 sé síðan gert ráð fyrir að Almannavarnir flytjist til embættisins.

Þótt fjármálaráðherra hafi gefið greinargóð svör á þingi um þetta, hefur umfjöllunin ekki verið í samræmi við það sem fram kom í svari hans. Síðastliðið vor lagði dómsmálaráðherra fram á Alþingi skýrslu um stöðu og þróun löggæslunnar í landinu, þar sem gerð er grein fyrir rekstri embættisins, auk þess sem ársskýrsla ríkislögreglustjórans gefur ítarlegar upplýsingar um rekstur og starfsemi embættisins á árinu 2001. Þar er gerð rækileg grein fyrir þróun í starfsmannamálum og rekstrarkostnaði embættisins frá stofnun þess. Þar kemur fram að fjölgun hefur orðið á starfsmönnum vegna tilfærslu verkefna innan lögreglunnar og nýrra viðfangsefna, sem stjórnvöld hafa falið embættinu. Hér kemur helst til tilfærsla á fjarskiptamiðstöð lögreglunnar og sérsveit, stofnun umferðardeildar og að sett var á stofn SIRENE-skrifstofa í tengslum við Schengen-samstarfið. Þegar litið er til þeirra viðfangsefna sem horft var til við stofnun embættisins hefur starfsmönnum sem sinna viðfangsefnum er snúa að embætti ríkislögreglustjórans sjálfs lítið fjölgað eða úr 32 mönnum árið 1997 í 36 á næsta ári, en samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2003 er fjölgað um tvær stöður í efnahagsbrotadeild. Aukning mannafla í þessari grunnstarfsemi embættisins, snýr fyrst og fremst að auknum viðfangsefnum í efnahagsbrotadeild. Heildar starfsmannafjöldi samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2003 miðast við 78 stöður. Stöðum hefur þannig fjölgað um 46 í heildina, þar af eru 42 stöður er lúta að nýjum viðfangsefnum sem hafa verið falin embættinu og varða hagræðingu, miðlæga stýringu og þjónustu við öll lögregluliðin í landinu.

Heildar fjárveiting til embættis ríkislögreglustjórans í fjárlagafrumvarpi ársins 2003 er 938,7 mkr. Þar af eru sértekjur 276,6 mkr. vegna bílareksturs lögreglu og samstarfs við Vegagerðina um umferðareftirlit.

Fjárheimildir til embættis ríkislögreglustjórnans árið 1998 voru 220,8 mkr. Fjárveitingar skv. fjárlagafrumvarpi ársins 2003 vegna sömu verkefna og við stofnun embættisins eru 333,9 mkr. Hækkun vegna grunnverkefna ríkislögreglustjórans eru því 51,2%, sem skýrist af verðlagshækkunum fjárlaga frá 1998, launahækkunum skv. nýjum kjarasamningi lögreglumanna og fjölgun starfsmanna um fjóra í grunnviðfangsefnum. Þróun fjárveitinga yfir sex ára tímabil 1998-2003 er vart meiri en gerist hjá öðrum löggæsluembættum.

Árið 2003 eru 64% af rekstri ríkislögreglustjórans ný verkefni sem nýtast fyrst og fremst lögregluliðum landsins. 36% af rekstri embættisins er vegna grunnverkefna þess.

Vísað er til meðfylgjandi mynda, er sýna þróun í starfsmannamálum og fjárveitingum. Smelltu hér til að sjá myndirnar  (Acrobat reader skjal)

Reykjavík, 6. október 2002

Ríkislögreglustjórinn