16 Nóvember 2017 22:56

Norðfjarðargöng voru opnuð laugardaginn 11. nóvember og ljóst að þarna er um gríðarlega samgöngubót að ræða fyrir íbúa Neskaupstaðar og í raun alla Austfirðinga. Nokkuð hefur verið kvartað yfir hraðakstri ökumanna sér í lagi á stórum ökutækjum í göngunum en þess ber að geta að framkvæmdum er ekki alveg lokið og hefur starfsmönnum sem vinna í göngunum ekki staðið á sama hve hratt er ekið þar sem þeir eru við vinnu sína. Lögreglan hefur rætt við starfsmenn Vegagerðarinnar þar sem merkingum hefur að mati lögreglu verið ábótavant á þeim stöðum sem unnið er að frágangi í göngunum. Lögreglan hvetur vegfarendur til að sýna tillitssemi og virða hraðatakmarkanir á umræddum stöðum. Lögreglan mun sinna sérstöku eftirliti í göngunum á meðan framkvæmdum stendur.

149 mál eru skráð í málaskrá lögreglunnar á Austurlandi á þessu tímabili.

Nokkur umferðaróhöpp yrðu í umdæminu en ekkert þeirra alvarlegt. Bílvelta varð á Norðfjarðarvegi við svokallaða sneiðinga á móts við grjótnámið við Skuggahlíð. Tveir aðilar voru ökutækinu sem fór þrjár veltur og meiddust þeir lítillega. Harður árekstur varð á Seyðisfjarðarvegi á Fjarðarheiði þar sem tvær bifreiðar rákust saman en þær komu úr gagnstæðri átt. Ökumenn bifreiðanna sem og farþegi voru flutt til aðhlynningar á heilsugæslustöðina á Egilsstöðum.

Tvær alvarlegar líkamsárásir urðu um síðastliðna helgi. Maður var kjálkabrotinn í öðru málinu sem átti sér stað í heimahúsi.  Málsatvik eru kunn og vitað hver var þar að verki.

Í seinna málinu var aðili stunginn með hnífi í heimahúsi. Árásaraðilinn var handtekinn og hefur sá viðurkennt verknaðinn. Hann hefur nú þegar hafið afplánun í réttarvörslukerfinu vegna fyrri mála. Þolandi árásarinnar var fluttur á sjúkrahúsið í Neskaupstað þar sem gert var að sárum hans.