5 Febrúar 2024 10:00

Konum innan lögreglunnar hefur fjölgað á síðustu árum og er hlutfall karla og kvenna jafnara en árið 2013. Meirihluti starfsfólks lögreglu er ánægt eða sátt með framgang starfsferils síns og hefur ánægja aukist meðal lögreglukvenna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum rannsóknar á vinnumenningu lögreglunnar sem hefur verið birt á vef lögreglunnar.  

Rannsóknin er framhaldsrannsókn á vinnumenningu og kynjatengslum sem var fyrst gerð  árið 2013. Ríkislögreglustjóri í samvinnu við lögregluembættin og dómsmálaráðuneytið bar ábyrgð á rannsókninni. Samið var við Finnborgu S. Steinþórsdóttur aðjúnkt og Gyðu M. Pétursdóttur, prófessor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands um framkvæmd hennar.

Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingar um að birtingarmynd kynferðislegrar áreitni innan lögreglu hafi breyst frá árinu 2013. Færri konur nefna kynferðislega snertingu og fleiri nefna niðrandi tal og brandara af kynferðislegum toga. Reynsla karla hefur staðið í stað eða minnkað. Um 15 prósent starfsfólks hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi sínu eða í tengslum við starf sitt hjá lögreglunni og eru konur líklegri til að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni en karlar. Menntaðar lögreglukonur eru líklegastar til að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Af þeim  konum sem hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi tilgreindu 60 prósent þeirra karlkyns samstarfsmenn sem geranda. Algengast er að karlar verði fyrir kynferðislegri áreitni í starfi sínu af hálfu kvenkyns utanaðkomandi aðila (74%). 

Konur eru einnig líklegri til að hafa orðið fyrir kynbundinni áreitni í starfi sínu eða í tengslum við starf sitt. Um 11 prósent starfsfólks hefur orðið fyrir kynbundinni áreitni, þar af 18 prósent kvenna og 7 prósent karla.  

Samanburður við fyrri kannanir bendir til þess að reynsla af einelti hafi minnkað meðal lögreglumanna og staðið í stað meðal borgaralegra starfsmanna. Um 14 prósent starfsfólks hafa orðið fyrir einelti í starfi sínu eða í tengslum við starf sitt hjá lögreglunni.

Rannsóknin endurspeglar starfsmannahóp lögreglunnar vel en 755 þátttakendur svöruðu spurningakönnun vegna hennar í október 2022 sem gerir svarhlutfallið 60 prósent og þykir mjög gott. Spurt var um samspil vinnu og einkalífs, framgang í starfi, starfsumhverfi, óviðeigandi hegðun á vinnustað og viðhorf til jafnréttismála. Lítill munur er á svörum eftir staðsetningu embætta en nokkur munur er á svörum lögreglumanna og borgaralega starfsmanna. Mikil fjölgun hefur verið á borgaralegum starfsmönnum og eru konur 62 prósent þeirra samanborið við 35 prósent starfandi lögreglumanna.

Skýrsluna í heild sinni má finna hér

Eldri skýrsla

Nánari upplýsingar veitir Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, í síma 444-2570 eða helena.sturludottir@logreglan.is