29 Desember 2020 12:38

Tilkynning frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra:

  • Óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálfta á Norðurlandi aflýst.
  • Íbúar hvattir til þess að huga reglulega að jarðskjálftavörnum.

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra, aflýsir óvissustigi vegna jarðskjálfta úti fyrir Norðurlandi.  Óvissustigi var lýst yfir 20. júní síðastliðinn vegna jarðskjálftahrinu sem hófst um 20 km NA við Siglufjörð. Á fyrstu þremur vikum eftir að skjálftarnir hófust í júní
mældust yfir 13 þúsund jarðskjálftar með sjálfvirka staðsetningarkerfi Veðurstofunnar.  Fram að miðjum október urðu reglulega skjálftar yfir 4 að stærð og nokkrar hrinur víðar á Tjörnesbrotabeltinu.

Skjálftavirkni á Tjörnesbrotabeltinu hefur verið nokkuð stöðug undanfarnar vikur. Síðustu tvær vikur hafa um 60 skjálftar mælst þar í hvorri vikunni. Síðast varð skjálfti þar yfir 3 að stærð þann 2. desember og þar áður 19. nóvember, báðir voru þeir 3,1 að stærð. Þann 6. október varð síðast skjálfti yfir 4 að stærð en honum fylgdi töluvert aukin virkni og nokkrir skjálftar á milli 3 og 4 að stærð. Þeir voru staðsettir norðan við Gjögurtá. Jarðskjálftavirknin undanfarna mánuði hefur aukist tímabundið af og til og því ekki útilokað að virknin taki sig aftur upp á næstunni þótt virkni síðustu vikur hafi verið stöðug.

Almannavarnadeild áréttar að þrátt fyrir að óvissustigi sé aflýst, þá er Tjörnesbrotabeltið virkt skjálftasvæði og stórir jarðskjálftar geta komið með litlum fyrirvara.  Því eru íbúar á þessu svæði hvattir til þess að huga reglulega að jarðskjálftavörnum og festa vel alla innanstokksmuni og ganga vel frá lausamunum sem geta valdið tjóni ef jarðskjálftar verða.

Nánari upplýsingar um varnir og viðbúnað við jarðskjálfta má finna á vef almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra með því að smella hér.

Meðfylgjandi mynd sýnir skjálftavirkni úti fyrir Norðurlandi síðustu vikuna.