7 Apríl 2007 12:00

Undanfarin sólarhring hafa þrír ökumenn verið teknir grunaðir um ölvun við akstur í umdæminu.  Það sem af er árinu eru þeir orðnir 18 stútarnir og að auki hafa fjórir einstaklingar verið teknir grunaðir um að hafa verið undir áhrifum annarra vímu- og fíkniefna við akstur.  Sem dæmi má nefna að á sama tíma í fyrra 2006 voru þetta 7 aðilar.  Lögreglan hefur allmiklar áhyggjur af þessari þróun og mun bregðast við með ennfrekara eftirliti til höfuðs ölvuðum ökumönnum, og mega menn búast við lögreglu í eftirlitsferðum á ólíklegustu tímum og stöðum.  Það er alveg ljóst að svona getur þetta ekki gengið. Lögreglan vill hvetja fólk til að hugsa sinn gang hvað þetta varðar. 

Það er með öllu óþolandi að það skulu vera til einstaklingar í samfélaginu sem leyfa sér að aka bifreið undir áhrifum áfengis eða annara vímuefna, og lítilsvirða samborgara sína og aðra sem á vegi þeirra verða með háttsemi sinni.

það sem af er helginni hafa tvö umferðarslys orðið í norðan verðum Hólmahálsi.  Um kl. 01:34 s.l nótt var fólksbifreið með þrem einstaklingum ekið út af veginum skammt ofan við svokallaða Bólkletta þar ofan í stórgtýti.  Bifreiðin stöðvaðist á hliðinni í urðinni eftir að hafa farið um 30 metra utan vegar.  Kallað var út sjúkralið, læknir og tækjabíll frá slökkviliði Fjarðabyggðar.  Ekki kom þó til þess að klyppur væru notaðar en grunur var um bak og hálsmeiðsli eins farþegans.  Með því að taka úr framrúðu var hægt að koma að þar til gerðum tækjum og ná farþeganum út.  Farþegarnir voru svo fluttir með sjúkrabíl á fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað til frekari aðhlynningar.  Ökumaðurinn hlaut handleggsbrot en hinir reyndust minna slasaðir en haldið var í fyrstu.  Mikil hálka var á slysstað.

Um kl. 20:32 í kvöld var bifreið ekið út af á svipuðum slóðum, í mikilli hálku.  Tveir menn voru í bifreiðinni sem valt á hliðina, og voru þeir fluttir á heilsugæslustöðina á Eskifirði til frekari skoðunar.