20 Febrúar 2015 11:53

Það óhapp varð í gær í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum að tíu ára piltur féll niður í gjótu í hrauninu við Grindavík og sat þar fastur. Vinur hans, sem var með honum, reyndi að toga hann upp en þegar það gekk ekki sótti hann aðstoð. Pilturinn lá á bakinu og var skorðaður milli tveggja steina, þannig að ekkert sást af honum nema hendurnar. Lögreglumaður losaði hann og dró hann upp úr gjótunni. Engir áverkar sáust á piltinum en hann var orðinn nokkuð kaldur þegar hann var losaður úr prísundinni.