8 Febrúar 2011 12:00

Lögreglan á Selfossi lýsir eftir manni sem réðist á 12 ára dreng í Hveragerði í gær. 

Ráðist var á 12 ára dreng utan við Arion banka við Breiðumörk í Hveragerði um kl. 19:30 í gærkvöldi, mánudag.  Drengurinn hafði ásamt tveimur félögum sínum verð á götunni er þeir sáu til manns á skokki.  Piltarnir tóku upp á því að grínast og elta manninn.  Skokkarinn brást við með því að stöðvað snarlega og veitast að einum drengjanna með því að slá hann í andlitið, taka hann kverkataki, keyra hann niður í gangstéttina, sleppa taki á drengnum og hélt að því loknu sína leið.  Drengurinn hlaut minni háttar áverka en var nokkuð skelkaður eftir meðferðina. 

Maðurinn er sagður vera hávaxinn á milli 30 og 40 ára.  Hann var klæddur í bláa íþróttapeysu, svartar joggingbuxur með svitaband um enni.  Lögreglan svipaðist um eftir manninum en fann ekki.  Lögreglan á Selfossi biður alla þá sem veitt geta upplýsingar um atvikið eða þekkja til lýsingar á manninum að hafa samband í síma lögreglunnar 480 1010.