8 Febrúar 2007 12:00

Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vill vekja athygli á gildandi reglum um ráðstöfun skotvopna í eigu dánarbúa. Samkvæmt vopnalögum nr. 16/1998 er skylt að ráðstafa vopnum sem skráð eru á látna einstaklinga í skotvopnaskrá innan 12 mánaða frá andláti leyfishafa. Í 5. gr. reglugerðar nr. 78/1998 um skotvopn, skotfæri o.fl. segir:

Nú andast maður er hefur leyfi fyrir skotvopni og skal því þá innan 12 mánaða ráðstafað til aðila sem hefur leyfi til að eiga sambærilegt skotvopn. Hafi svo ekki verið gert skal skotvopnið afhent lögreglu til geymslu þar til endanleg ráðstöfun þess verður ákveðin. Maki, sem hefur fengið leyfi til setu í óskiptu búi, þarf leyfi lögreglustjóra fyrir skotvopni eða skotvopnum, sem hinn látni maki hafði leyfi fyrir. Sé um að ræða skotvopn sem hefur ótvírætt minja- eða tilfinningagildi fyrir erfingja hins látna er lögreglustjóra heimilt að víkja frá skilyrðum 2. gr. reglugerðarinnar enda verði skotvopnið gert óvirkt.

Aðstandendur og umsjónarmenn dánarbúa eru hvattir til að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu vegna ráðstöfunar á skotvopnum í eigu dánarbúa. Einnig er  hægt að afhenda lögregluembættinu skotvopn til eyðingar. Skráning skotvopna er hjá afgreiðslu lögreglunnar í Borgartúni 7b í Reykjavík.