1 September 2006 12:00
Lögreglan í Árnessýslu hefur nú yfirheyrt 5 einstaklinga sem hafa allir viðurkennt að hafa afhent fangaverði á Litla-Hrauni fíkniefni til að flytja inn í fangelsið. Aðilar þessir hafa allir komið við sögu fíkniefnamála áður og 3 þeirra eru fyrrum refsifangar í fangelsinu. Fangavörðurinn sem handtekinn var og úrskurðaður í gæsluvarðhald s.l. laugardag var látinn laus síðla dags s.l. þriðjudag. Við yfirheyrslur hefur hann játað að hafa, gegn peningagreiðslu, í alls átta skipti, frá því hann hóf störf við sumarafleysingar s.l. vor, flutt fíkniefni inn í fangelsið. Hann var með um 250 gr. af ætluðu hassi og um 33 gr. af ætluðu amfetamíni þegar hann var handtekinn. Upplýsingar um magn fíkniefna í hverri hinna ferðanna verða ekki gefnar að svo stöddu. Í þágu rannsóknar málsins var lagt hald á tiltekna peningaupphæð á sérstökum bankareikningi fangavarðarins. Ekkert hefur komið fram við rannsókn lögreglu sem styður fullyrðingar sem komið hafa fram í fjölmiðlum um að hann hafi einnig afhent föngum síma til notkunar innan fangelsisins. Tveir refsifangar sem einnig voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna rannsóknar málsins hafa einnig verið látnir lausir úr gæslunni. Rannsókn málsins er að mestu lokið og verður það sent ákæruvaldinu til meðferðar innan tíðar.