2 Febrúar 2007 12:00

Héraðsdómur Suðurlands framlengdi í dag til 9. mars n.k. gæsluvarðhaldi yfir karlmanni á þrítugsaldri vegna rannsóknar lögreglu á innbroti, íkveikju og þjófnaði í íbúðarhúsi að Norðurbyggð 18 a í Þorlákshöfn aðfaranótt laugardagsins 20. janúar s.l. 

Kærði hefur, við yfirheyrslur hjá lögreglu, játað að hafa brotist inn í húsið, stolið þar ýmsum munum og síðan að hafa borið eld að því í þeim tilgangi að fela ummerki um innbrotið.   Rannsókn bendir til að hann hafi verið einn á ferð við þessa iðju sína.

Gæsluvarðhaldið byggist á 2. mgr. 103 gr. og c-liðar 1. mgr. 103 gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Rannsókn lögreglu  er vel á veg komin og verður málið sent Ríkissaksóknara að henni lokinni.