24 Maí 2013 12:00

Bráðabirgðaniðurstöður rannsóknar vegna andláts hjóna í hjólhýsi þeirra í Þjórsárdal þann 19. maí s.l. hafa leitt í ljós að samsetning á reykröri við gasofn í innréttingu hússins var í sundur upp undir lofti þess, á bak við innréttingu.  Þetta leiddi til þess að að útblástursloft  barst inn í húsið frá útblæstri kyndingarinnar í stað þess að fara út um reykháf. 

Þrýstijafnarar og annar búnaður fyrir gaslagnir er enn til rannsóknar hjá Tæknideild lögreglu Höfuðborgarsvæðisins og Vinnueftirliti en fyrsta skoðun bendir til þess að þeir séu í lagi.

Enn er beðið endanlegrar niðurstöðu krufningar en bráðabirgðaniðurstöður styðja það sem fram er komið við rannsókn á búnaði hússins.

Hjólhýsið sem um ræðir hafði verið fastsett á staðnum og var notað sem sumarbústaður þar.