13 Júlí 2010 12:00

Lögregla hefur lokið rannsókn á umferðarslysi er átti sér stað á Hafnarfjarðarvegi norðan Arnarnesbrúar að morgni 18. desember 2009.  Slysið varð með þeim hætti að bifreið var ekið til suðurs Hafnarfjarðarveg og yfir á akbraut fyrir umferð úr gagnstæðri átt þar sem árekstur varð.   

Ökumaður var einn í bifreiðinni sem ekið var suður Hafnarfjarðarveg en tveir menn í hinni. Þeir létust allir í slysinu.

Rannsókn lögreglu miðaði að því meðal annars að áætla hraða ökutækjanna fyrir slysið og kanna öryggisbúnað þeirra. Þá var mögulegra orsaka leitað í líkamlegu ástandi ökumanna.

Engar vísbendingar eru um hraðakstur í aðdraganda slyssins og það meðal annars byggt á framburði vitna og eins á mælingum hraðagreina á akbraut til suðurs Hafnarfjarðarveg, við Kópavogslæk skammt frá slysstað.

Í samræmi við hraðaútreikninga sem gerðir voru eftir óhappið jók bifreiðin sem ekið var suður Hafnarfjarðarveg hraðann eftir að hafa farið yfir hraðagreini á Hafnarfjarðarvegi, snérist á veginum, fór yfir autt svæði milli akbrauta til suðurs og norðurs Hafnarfjarðarveg og lenti á á bifreið sem ekið var úr gagnstæðri átt.

Í krufningsskýrslu kom fram að ökumaður bifreiðar sem ekið var suður Hafnarfjarðarveg var meðvitundarlaus er árekstur varð. Hann hafði fengið hjartaáfall og var hann úrskurðaður látinn við komu sjúkraliða á slysstað.

Orsök slyssins er því rakin til líkamlegs ástands ökumanns bifreiðar sem ekið var suður Hafnarfjarðarveg.