30 Júlí 2013 12:00

Rannsóknardeild Lögreglunnar á Selfossi hefur í gær og í dag unnið að rannsókn á tildrögum banaslyss sem varð á Langjökli í gær þegar karlmaður um sextugt missti stjórn á vélsleða sem hann ók með þeim afleiðingum að sleðinn valt og hann lést en eiginkona mannsins, sem var farþegi á sleðanum, kastaðist af sleðanum og brotnaði á fæti auk þess sem hún skrámaðist í andliti og víðar.

Hjónin voru þáttakendur í skipulagðri ferð á jökulinn þar sem ferðamennirnir leigja sér sleða og aka í röð eftir fyrirfram afmarkaðri braut  eftir að hafa fengið öryggisbúnað og leiðbeiningar um aksturinn.  Ökuhraði í þessum brautum er jafnan lítill,  10 til 15 km/klst.   Áður en lagt er af stað í ferðina undirritar viðkomandi yfirlýsingu þess efnis að hann hafi réttindi til aksturs sleðanna útgefin í heimalandi sínu.  Undanfari fer fyrir hópnum auk þess sem annar starfsmaður leigunnar er í röðinni fyrir um það bil miðju og loks þriðji starfsmaðurinn aftastur.  

Aksturinn virðist hafa farið eðlilega af stað en síðan tók maðurinn sig út úr röðinni, jók hraðann umtalsvert og við það kastaðist konan af sleðanum.  Síðan virðist  sleðinn hafa farið a.m.k. 2 veltur og stöðvaðist.   Maðurinn var meðvitundarlaus en með lífsmarki þegar að var komið og hlúðu starfsmenn að honum um leið og þeir kölluðu eftir aðstoð.  Hann var úrskurðaður látinn á vettvangi af lækni í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar en konan var flutt á sjúkrahús í Reykjavík til aðhlynningar.

Eldsneytisgjöf vélsleða er við stýrishandfang sleðans.   Venjan er að ökumaður þrýsti á hana með þumalfingri hægri handar og beinist rannsóknin m.a. að því hvort búnaður sleðans hafi verið í lagi og þá hvort ökumaðurinn hafi gripið utan um eldsneytisgjöfina og stýrishandfangið og haldið eldsneytisgjföfinni þannig fastri í botni en ætla má að óvönum fatist við svo mikla inngjöf sem af slíkum handbrögðum hlytist.

Fyrir liggur að ökumaðurinn var allsendis óvanur því að aka vélsleða en hafði einhverja reynslu af akstri á „vespum“.  Verið er að afla upplýsinga um ökuréttindi hans.

Veður á Langjökli, þegar slysið varð, var gott, logn, sólbráð og 14 stiga hiti og færð í samræmi við það sem búast má við á sumartíma á jökli. 

Hinn látni hét Jin Jee Dzan og var fæddur þann 10.02.1951 frá Taiwan