7 Nóvember 2006 12:00

Lögreglan í Árnessýslu hefur haft til rannsóknar banaslys sem varð á Suðurlandsvegi í Flóa þann 8. ágúst s.l.   Þar skullu saman fólksbifreið og lítil jeppabifreið.   Kona sem ók fólksbifreiðinni lést af áverkum sem hún hlaut en þeir voru mestir á brjóstholi.    Rannsókn Fræðslumiðstöðvar bílgreina á flaki bifreiðarinnar leiddi í ljós að gert hafði verið við miklar ryðskemmdir í bifreiðinni með því að skrúfa járnplötur yfir göt í gólfi hennar og endurmóta mikið ryðgaða sílsalista með festirauði sem spartslað var yfir og  síðan málað.    Enda þó ljóst sé að árekstur bifreiðanna hafi orðið við það að hin látna ók bifreið sinni yfir á öfugan vegarhelming má leiða líkum að því að áverkar af slíkum árekstri hefðu orðið mun minni ef styrkur burðarvirkis bifreiðarinnar hefði verið í lagi.  Konan var í öryggisbelti og hraði bifreiðanna í árekstrinum ekki mikill.

Þann 6. mars árið 2005 varð banaslys á Suðurlandsvegi við Þrengslavegamót.   Það varð með þeim hætti að fólksbifreið fór yfir á öfugan vegarhelming í hálku og lenti framan á gamalli, breyttri jeppabifreið.  Við áreksturinn losnaði “boddy” jeppabifreiðarinnar frá grindinni og endaði bifreiðin í tveimur hlutum utan vegar.

Í báðum þessum tilfellum eiga hlut að umferðarslysi ökutæki sem farið höfðu í gegn um lögbundna skoðun í viðurkenndri skoðunarstöð.  Þessi dæmi veita vísbendingar um að strangari skoðunar sé þörf, einkanlega þar sem eldri og / eða breyttar bifreiðar eiga í hlut.