2 Janúar 2009 12:00

Í Morgunblaðinu miðvikudaginn 31. desember sl. er umfjöllun um efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, þar sem meðal annars er vísað til fréttatilkynningar frá embættinu sem birt var á lögregluvefnum 23. desember sl.

Meginþunginn í frétt blaðsins er að til skoðunar sé að færa efnahagsbrotadeildina til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt heimildum blaðsins, en minna gert úr efni fréttatilkynningarinnar um sterka stöðu efnahagsbrotadeildar, sem fréttavefurinn mbl.is gerði hins vegar góð skil sama dag.  Í frétt blaðsins er haft eftir Birni Bjarnasyni dóms- og kirkjumálaráðherra að málastaða efnahagsbrotadeildarinnar sé góð en hins vegar væri allt skipulag rannsóknarlögreglunnar til skoðunar við endurskoðun lögreglulaga.

Af þessu tilefni er áréttað að staða mála í efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra er betri nú en hún hefur nokkru sinni verið.  Ef breyta ætti þeirri skipan að efnahagsbrotadeild, sem fer með rannsókn mála hvar sem er á landinu, sé hjá ríkislögreglustjóra, þyrfti að fara rækilega yfir kosti þess og galla. Á hinum Norðurlöndunum er fyrirkomulag efnahagsbrotarannsókna með sambærilegum hætti og hér, þar sem þeim er komið fyrir utan við rannsóknir hjá einstökum lögregluembættum og þær framkvæmdar í nánu samstarfi við ákæruvaldið í málaflokknum.

Þá er áréttað af sama tilefni að tafir á máli sakbornings sem sætt hefur farbanni í 20 mánuði stafar fyrst og fremst af því að réttarbeiðnir sem sendar hafa verið til annarra landa hafa ekki fengist afgreiddar.  Þar getur efnahagsbrotadeildin ekki beitt sér frekar en með því að ítreka beiðni um aðstoð.

Í fréttinni segir ennfremur að endurmenntun starfsmanna hafi setið á hakanum að undanförnu. Í því sambandi skal tekið fram að þótt álag á starfsmenn hafi verið mikið vegna þeirra mikilvægu verkefna sem deildin sinnir, er fræðslu og endurmenntun starfsmanna sinnt eftir því sem efni og aðstæður leyfa.