2 Nóvember 2015 11:16

Rannsókn líkfundar í Laxárdal í Nesjum er lokið og málið verður á næstu dögum sent til ákærusviðs Lögreglustjórans á Suðurlandi til frekari ákvörðunar.

Eins og áður er komið fram hefur Kennslanefnd ríkislögreglustjóra staðfest að líkið var af 19 ára gömlum frönskum manni, Florian Maurice Francois Cendre.

Niðurstaða krufningar er að ekki er hægt að segja til um dánarorsök.  Engar vísbendingar eru um að andlátið hafi verið með saknæmum hætti.  Vitni gaf sig fram við rannsókn málsins sem skýrði frá því að hafa verið á gögnu ofan við Nesjar síðdegis þann dag sem vitað er að Florian kom með flugi til Hafnar frá Reykjavík.  Vitnið greindi frá því að hafa séð álengdar  mann með bakpoka á göngu eftir vegslóða inn  Laxárdal.  Vitnið var í of mikilli fjarlægð frá manninum til að greina hver hann væri eða sá nákvæmlega fatnað hans en taldi hann þó ekki hafa verið í útivistarfatnaði.  Rúmum mánuði síðar átti vitnið leið eftir veginum inn að Laxárdal þegar það sá bakpoka um 20 metra ofan við vegslóðan rétt innan við Þverá.  Vitnið áleit einhvern hafa lagt pokann frá sér og farið í göngu um nágrennið og setti þetta ekki í samhengi við manninn sem það sá 2. október 2014.  Í ljós hefur komið að farvegur Þverár hefur breyst mikið á þeim slóðum sem vitnið sagðist hafa séð bakpokann.  Hefur það hugsanlega gerst í vorleysingum.  Ekkert er vitað um afdrif þessa bakpoka og ekki staðfest að hann sé frá Florian.

Við rannsókn málsins kom í ljós að Florian var mjög mikill einfari og hafi nánast engin samskipti átt við fjölskyldu og vini í ein tvö ár.  Hann mun hafa lokað sig inni í heimi tölvuleikja.  Hann sagði ekki frá Íslandsferði sinni og engar vísbendingar um ástæðu hennar eða hver tilgangur hans var að fara austur á Höfn.  Líklegast er talið að Florian hafi orðið úti skömmu eftir að hann kom til Hafnar.