19 September 2011 12:00

Þann 14. september komu eigendur  hrossa sem verið hafa í hagabeit í landi Meðalfells í Kjós á lögreglustöð og tilkynntu um áverka á þremur hryssum sem taldir eru vera af mannavöldum.  Í öllum tilvikunum er um að ræða áverka á kynfærum dýranna, bæði utanverðum og einnig innvortis.  Tvö tilvik voru uppgötvuð þann 10. júlí og það þriðja þann 11. september.  Lögregla var ekki kölluð á staðinn.

Kallað verður eftir gögnum frá dýralækni og unnið er að því að reyna að áætla hvenær atvikin áttu sér stað og hverjir hér voru að verki.

Lögreglan hvetur eigendur hrossa að fylgjast með þeim eins og kostur er og hafa tafarlaust samband við lögreglu í síma 112 ef grunsemdir vakna um dýraníð. Mikilvægt er að lögreglan geti strax  kynnt sér aðstæður á vettvangi og aflað nauðsynlegra gagna.

Jafnframt eru hlutaðeigandi beðnir um að fylgjast vel með mannaferðum við beitarhólf og halda til haga upplýsingum um ökutæki og mannaferðir.

Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um atvikin hér að ofan eru beðnir um að hafa samband við lögreglustöð 4 í síma 444 1190 á skrifstofutíma eða í síma 444 1180 þess utan.