24 Júní 2010 12:00

Ríkislögreglustjóri og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafa lokið við gerð viðamikillar rannsóknarskýrslu á heimilisofbeldi.  Rannsóknin er hluti af stærra verkefni sem hófst árið 2000 er ríkislögreglustjóri ákvað að gera rannsókn á ofbeldi, eins og það birtist í gögnum lögreglu og gögnum Landspítala háskólasjúkrahúss. Í framhaldinu var gerð áætlun um að skoða mismunandi tegundir ofbeldis og byrjað á ofbeldi gegn lögreglumönnum og birtust niðurstöður þeirrar rannsóknar í skýrslu árið 2007.

Í rannsóknarskýrslunni um heimilisofbeldi var unnið með samtals 993 mál sem töldust annaðhvort ofbeldi eða ágreiningur milli skyldra og tengdra og tilkynnt voru til lögreglu á árunum 2006-2007.  Rannsóknina gerðu þær Guðbjörg S. Bergsdóttir, félagsfræðingur hjá embætti ríkislögreglustjóra og Rannveig Þórisdóttir, deildarstjóri hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að í flestum tilvikum voru ofbeldis- eða ágreiningsmál milli skyldra og tengdra skráð á höfuðborgarsvæðinu eða 76% ofbeldismála og 81% ágreiningsmála.  Flest tilvikin áttu sér stað á heimili eða einkalóð, eða í 92% tilvika.  Tilkynningar um heimilisofbeldi dreifast nokkuð jafnt yfir árið.  Hins vegar eru flest tilvik tilkynnt um helgar eða 47%.  Athygli vekur að þegar tími tilkynningar er skoðaður eftir vikudegi þá var heimilisofbeldi oftar tilkynnt á kvöldin á virkum dögum en eftir miðnætti og fram eftir nóttu um helgar.

Gerendur voru 787 og komu þeir við sögu í 950 tilvikum.  Í 76% tilvika voru karlar gerendur og í 24% tilvika konur.  Meðalaldur gerenda var 35 ár.  Konur voru líklegri en karlar til að vera ítrekað þolendur og að sama skapi voru karlar líklegri en konur til að vera ítrekað gerendur.  7% karlanna og 15% kvennanna komu oftar en einu sinni fyrir í skýrslum lögreglu sem þolendur.  Þegar önnur brot gerenda voru skoðuð kom í ljós að 715 þeirra höfðu verið kærðir fyrir önnur brot en heimilisofbeldi á árunum 2000 til 2007, flestir fyrir umferðarlagabrot. 

Forsaga var þekkt í um helmingi tilvika.  Þegar þau tilvik voru skoðuð kom í ljós að í um 30% tilvika var heimilisofbeldi rakið til skilnaðar eða sambandsslita.  Áfengis- eða vímuefnaneysla var hluti af forsögu rúmlega 18% ofbeldismála og 12% ágreiningsmála. 

Í skýrslunni er að finna nánari greiningu á þessum málum og frekari niðurstöður.

Skýrsluna má nálgast hér.