16 Apríl 2010 12:00
Nú þegar vora tekur fjölgar reiðhjólum á götum á höfuðborgarsvæðinu og um leið slysum á reiðhjólafólki. Nokkur brögð hafa verið að því að börn og unglingar hafi verið hjálmlaus á ferð á hjólum sínum og því þarf að breyta. Á hverju ári bjarga hjálmar reiðhjólafólki frá dauða eða alvarlegum slysum og því hvetur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu foreldra og forráðamenn til að sjá til þess að börn og unglingar séu ekki hjálmlaus á ferð á reiðhjólum. Jafnframt eru foreldrar hvattir til að sína fordæmi og setja upp hjálma, því börn læra það sem fyrir þeim er haft.
Einnig er bent á mikilvægi þess að geyma reiðhjól á eins öruggum stað og unnt er og alls ekki skilja þau eftir ólæst. Ef illa fer, og hjóli er stolið, getur komið sér vel ef eigandinn hefur raðnúmer þess tiltækt. Það auðveldar lögreglu að koma því til skila ef það á annað borð kemur í óskilamunadeild hennar.