25 Maí 2004 12:00

Föstudaginn 21. maí síðastliðinn voru nemendum í 1. bekk Hvolsskóla á Hvolsvelli afhentir hlífðarhjálmar, reiðhjólahjálmar að gjöf frá Kiwanishreyfingunni á Íslandi og flutningafyrirtækinu Flytjanda hf.  Jónína Ólafsdóttir umboðsaðili Flytjanda hf á Hvolsvelli afhenti nemendunum ungu hlífðarhjálmanna sem eru vandaðir í alla staði.  Mikil ánægja og eftirvænting ríkti meðal nemendanna með þessa góðu gjöf en Gils Jóhannsson lögregluvarðstjóri fór í framhaldinu yfir helstu öryggisatriði varðandi notkun hlífðarhjálmanna en öllum börnum yngri en 15 ára er skylt að vera með hlífðarhjálmm, öryggishjálm á höfði þegar þau eru á reiðhjólum.  Hér er um mikilvægt uppeldislegt atriði að ræða og því verða foreldrar og forráðamenn barna að sýna gott fordæmi og hvetja börn sín einatt að nota þann öryggisbúnað sem í boði er hverju sinni.  Fullorðnir ekki síður en börnin ættu að temja sér að nota hlífðarhjámla þegar hjólað er því það hefur sýnt sig ítrekað að hlífðarhjálmar hafa bjargað séu þeir notaðir.  Eftir að afhendingin hafði farið fram voru reiðhjól barna í Hvolsskóla frá 1. til og með 6. bekkjar tekin til skoðunar en þetta er árviss og mjög ánægjulegur viðburður í starfi lögreglunnar.  Athygli vakti að flest börn voru til þess að gera á nýlegum eða nýjum reiðhjólum og því fengu allir skoðun án teljandi athugasemda og til staðfestingar var límdur þar til gerður skoðunarmiði á hvert reiðhjól.