18 Maí 2015 11:37

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði akstur ökumanns á þrítugsaldri í nótt vegna gruns um að hann æki undir áhrifum fíkniefna. Hann reyndist bæði vera ölvaður undir stýri auk þess sem hann játaði neyslu á kannabis. Við leit í bifreið hans fundust fimm pokar af fíkniefnum, sem hann kvaðst eiga, auk eins poka til viðbótar sem hafði að geyma óþekkt efni. Maðurinn hafði aldrei öðlast ökuréttindi, en framvísaði nafnskírteini frá heimalandi sínu þegar lögregla spurði hann um skilríki.

Áður hafði lögregla haft afskipti af öðrum ökumanni vegna fíkniefnaaksturs. Hann framvísaði kannabisefnum sem voru í hanskahólfi bifreiðar hans. Þriðji ökumaðurinn var handtekinn vegna ölvunar við aksturinn.

Loks stöðvuðu lögreglumenn karlmann á reiðhjóli sem framvísaði tveimur pokum af kannabisefnum.