10 Apríl 2015 13:52

Hollenskar mæðgur sitja nú í gæsluvarðhaldi eftir að hafa gert tilraun til að smygla tæplega 20 kílóum af fíkniefnum til landsins. Um er að ræða amfetamín, kókaín og MDMA, sem tollverðir fundu í ferðatöskum þeirra.

 

Mæðgurnar komu til landsins á föstudaginn langa með flugi frá Amsterdam og áttu pantað flugfar til baka á mánudagsmorgun. Eftir að lögreglan á Suðurnesjum hafði handtekið þær  handtók lögreglan á höfuðborgarsvæðinu íslenskan karlmann vegna málsins og sætir hann einnig gæsluvarðhaldi. Náin samvinna Tollstjóra, lögreglustjórans á Suðurnesjum, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og tengslaskrifstofu Íslands hjá Europol skilaði þeim árangri sem þarna náðist í baráttunni gegn smygli á fíkniefnum til landsins.

Mæðgurnar, svo og Íslendingurinn hafa verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 15. apríl næstkomandi.

Ekki er unnt að veita frekari upplýsingar vegna málsins að sinni þar sem það er á viðkvæmu rannsóknarstigi.