13 Júlí 2009 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur birt niðurstöður könnunar á reynslu íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Könnunin var framkvæmd af Capacent Gallup í apríl 2009 og náði til ríflega 2100 svarenda á höfuðborgarsvæðinu. Markmið könnunarinnar var að kanna viðhorf til lögreglunnar, ótta við afbrot og eigin reynslu af afbrotum. Skýrsluna með niðurstöðum könnunarinnar má nálgast hér.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eykst ánægja með störf lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um 4 prósentustig frá síðustu könnun. Tæplega 91% svarenda telur lögregluna skila góðu starfi í sínu hverfi við að stemma stigum við afbrotum, þar af telur fjórðungur svarenda að lögreglan skili mjög góðu starfi. Þá er viðhorf til aðgengis að lögreglunni er betra en í síðustu könnun. Ríflega helmingur svarenda (56%) telur innbrot vera mesta vandamálið í sínu hverfi.  Þetta er mun hærra hlutfall en mældist í síðustu könnunum, þegar um þriðjungur svarenda nefndi innbrot. Færri nefna nú umferðarlagabrot og eignaspjöll sem mesta vandamálið. Fleiri segjast nú mjög öruggir og færri mjög óöruggir þegar þeir ganga einir í sínu hverfi eftir að myrkur skellur á heldur en í síðustu könnun. Tæp 52% svarenda segjast mjög öruggir þegar þeir ganga einir í sínu hverfi eftir að myrkur skellur á. Þeim sem segjast mjög öruggir þegar þeir ganga einir í miðborginni eftir að myrkur skellur á fer fækkandi annað árið í röð (6,8%). Hinsvegar fjölgar þeim sem segjast frekar öruggir (30,2%). Tæp 63% segjast aldrei hafa upplifað aðstæður sínar þannig árið 2008 að þeir teldu líklegt að þeir yrðu fyrir afbroti hér á landi. Það er fimm prósentustigum minna hlutfall en í síðustu könnun.