31 Mars 2020 11:54

Frá árinu 2008 hafa embætti ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu staðið sameiginlega að gerð þolendakönnunar fyrir allt landið. Með þolendakönnunum er verið að greina reynslu borgaranna af afbrotum, öryggistilfinningu þeirra í eigin hverfi og í miðborg Reykjavíkur. Einnig eru í sömu könnun metin viðhorf til og reynsla af störfum lögreglunnar á landsvísu en Félagsvísindastonfun Háskóla Íslands vinnur þá úttekt fyrir lögregluna.  Allar niðurstöðurnar má finna hér.

Árið 2019 var könnunin lögð fyrir í júní til ágúst en hún miðast að mestu leyti við atburði og upplifun almennings árið áður. Þær upplýsingar sem þolendakönnunin veitir lögreglunni og borgurum eru mikilvægar og munu áætlanir lögregluembættanna m.a. taka mið af niðurstöðum hennar.

Hlutfall tilkynntra brota
Þátttakendur eru spurðir hvort þeir hafi orðið fyrir tilteknum brotum á undangengnu ári og þeir sem svöruðu því játandi fá í kjölfarið spurninguna „Tilkynntir þú brotið sem þú varðst fyrir árið 2018 til lögreglu?“

Hlutfallslega tilkynntu flestir innbrot, eða 48%, sem er það hæsta síðan árið 2013. Næst flestir tilkynntu ofbeldisbrot, eða 43,4% og þar á eftir þjófnað, um 40%. Þá tilkynntu 26% eignaspjöll. Hlutfallið jókst á milli ára í öllum þessum brotaflokkum, mest í tilvikum ofbeldisbrota og næst mest í eignaspjöllum.
Af þeim sem urðu fyrir heimilisofbeldi voru 18,4% sem sögðust hafa tilkynnt brotið til lögreglu sem er lækkun um u.þ.b. 1,5 prósentustig frá árinu áður. Marktækur munur var á svörum karla og kvenna en enginn karlmaður sagðist hafa tilkynnt það heimilisofbeldi sem hann varð fyrir árið 2018. Aðeins rétt rúmur fjórðungur kvenna sagðist hafa tilkynnt brotið til lögreglunnar.

Kynferðisleg myndbirting er brotaflokkur sem varð meira áberandi í kjölfar vaxandi vinsælda samfélagsmiðla og almennrar netnotkunar. Fjöldi tilvika er samt sem áður tiltölulega lágt hér á landi og voru aðeins 9 einstaklingar sem svöruðu því að hafa orðið fyrir slíku broti. Þar af var þriðjungur sem sagðist hafa tilkynnt brotið til lögreglunnar. Hlutfall tilkynnenda hefur farið vaxandi síðan farið var að spyrja um það í þolendakönnun árið 2017 og verður það að teljast jákvætt.

Hér má sjá hlutfall þeirra sem tilkynntu brot til lögreglu.

Þolendakannanir síðustu ára má finna hér efst á síðunni, undir:  Útgáfa – Fræðilegar rannsóknir – Reynsla almennings af afbrotum og viðhorf til lögreglu.