30 Október 2014 12:00

Embætti ríkislögreglustjóra og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafa birt skýrslur sínar um viðhorf til lögreglu, ótta við afbrot og reynslu af þeim. Um er að ræða kannanir sem lögreglan hefur framkvæmt reglulega síðastliðin ár í samstarfi við rannsóknarstofu í afbrotafræði.

Könnunin var framkvæmd af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands í maí og júní 2014. Tekið var 4.000 manna tilviljunarúrtak fólks á aldrinum 18 til 76 ára af landinu öllu, 2.000 manns á höfuðborgarsvæðinu og 2.000 manns á landsbyggðinni. Alls svöruðu 2.605 einstaklingar könnuninni, þar af 1.370 á höfuðborgarsvæðinu. Svarhlutfallið var því 65 prósent fyrir landið allt, en 68,5 prósent fyrir höfuðborgarsvæðið. Niðurstöður ríkislögreglustjóra byggja á heildartölunum og eru svör þátttakenda greind eftir landshlutum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greinir gögnin hins vegar sérstaklega eftir hverfum og bæjarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Báðum skýrslunum er skipt eins í kafla. Fyrsti kaflinn fjallar um starf lögreglu, aðgengi og sýnileika og sá næsti um ótta við afbrot og öryggistilfinningu. Síðasti kaflinn er um reynslu af afbrotum og tilkynnt brot. Meðal annars kemur fram að meirihluta þátttakenda fannst lögreglan hafa skilað góðu starfi árið 2013 við að stemma stigu við afbrotum í þeirra byggðarlagi/hverfi og var meirihluti þeirra sem höfðu nýtt sér þjónustu lögreglu ánægðir með hana.

Mikill meirihluti svarenda telur sig öruggan eina á gangi í sínu hverfi/byggðalagi að næturlagi. Hins vegar telur rúmlega helmingur svarenda sig vera óörugga í miðborg Reykjavíkur eftir að myrkur er skollið á eða eftir miðnætti um helgar. Líkt og fyrri ár upplifðu hlutfallslega fleiri konur sig óöruggar í miðborginni en karlar.

Þegar spurt var um hvaða afbroti fólk hafði mestar áhyggjur af að verða fyrir, var innbrot oftast nefnt líkt og í síðustu könnun. Þar á eftir nefndu svarendur ofbeldisbrot og því næst þjófnaði.

Skýrsluna fyrir landið allt má finna hér

Skýrsluna fyrir höfuðborgarsvæðið má finna hér