17 Október 2002 12:00
Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að höfðu samráði við dómsmálaráðherra, að kosta eina stöðu lögreglumanns við lögreglustjóraembættið á Hvolsvelli í eitt ár. Með frekari hagræðingu í rekstri ríkislögreglustjórans var unnt að gera þessa breytingu. Um er að ræða stöðu lögreglumanns við umferðardeild ríkislögreglustjórans, sem verður með aðsetur á Hvolsvelli og undir daglegri stjórn lögreglustjórans þar.
Sams konar fyrirkomulag er hjá lögreglustjóranum á Akureyri, þar sem einn lögreglumaður umferðardeildarinnar heyrir undir daglega stjórn lögreglustjórans þar og starfar í lögregluliðinu á kostnað ríkislögreglustjórans.
Þá hefur ríkislögreglustjóri ákveðið að frá og með 1. nóvember næstkomandi starfi umferðardeildin að öðru leyti undir daglegri stjórn lögreglustjórans í Kópavogi. Hér er um að ræða tilraunaverkefni til að efla umferðarlöggæsluna á höfuðborgarsvæðinu.